Stjórn Heimilis og skóla ályktar um skaðlegan hávaða í umhverfi skólabarna

Stjórn Heimilis og skóla hefur sent frá sér ályktun þar sem vakin er athygli á skaðlegum hávaða í umhverfi skólabarna. Finna má efni þessu tengt á vefsíðunni www.rödd.is en haldin var ráðstefna í október þar sem saman komu helstu sérfræðingar og ræddu vandann.

 

                  

Reykjavík, 7. desember 2012

Efni: Ályktun frá stjórn Heimilis og skóla vegna skaðlegs hávaða í umhverfi skólabarna.

Stjórn Heimilis og skóla – Landssamtaka foreldra lýsir yfir áhyggjum af vinnuaðstæðum barna og unglinga í skólum landsins. Í október var haldin ráðstefna um skaðleg áhrif hávaða í námsumhverfi barna (sjá nánar á www.rödd.is) en þar kom m.a. fram að hávaði hefur mælst svo hár í leikskólum og íþróttasölum að samkvæmt vinnuverndarlögum ættu einstaklingar að ganga með eyrnahlífar. Þar með er hávaðinn kominn langt yfir þau mörk sem fullorðnir telja vera forsendu þess að geta einbeitt sér eða heyrt talað mál. Ekki ætti að gera minni kröfur til starfsumhverfis barna en fullorðinna en því miður er engin vinnuverndarlöggjöf í gildi fyrir börn. Sérstaklega þarf að huga að hávaða í leikskólum þar sem börn dvelja langtímum saman á viðkvæmu máltökuskeiði. Einnig þarf að endurskoða hvernig mælingar á hávaða eru framkvæmdar en til að marktækar niðurstöður fáist þarf að fylgja ákveðnum viðmiðum við mælingar. Eins og staðið er að hávaðamælingum í dag þá geta þær ekki gefið rétta mynd af erilshávaða og hefur dr. Valdís Ingibjörg Jónsdóttir, talmeinafræðingur, vakið athygli á þessu. Einnig hefur umboðsmaður barna sent foreldrafélögum og foreldra- og skólaráðum í leik- og grunnskólum bréf um aðbúnað og öryggi í leik- og grunnskólum en þar er m.a. fjallað um hávaða í skólum, öryggi og slysavarnir, brunavarnir og aðrar forvarnir. Skólastjórar fengu einnig bréf til kynningar á málinu með afriti af bréfinu til foreldrafélaganna. Þar kemur fram að embætti umboðsmanns barna hafi borist fjölmargar ábendingar frá börnum, foreldrum og fagfólki vegna ýmissa vandamála er varða öryggi og aðbúnað í skólum landsins. Þar kemur fram að hávaði í umhverfi barna sé dulið en alvarlegt vandamál. Börn eru mun viðkvæmari fyrir hávaða en fullorðnir og minna þarf til að heyrn þeirra skaðist. Einnig hafa Heimili og skóla borist ábendingar sama efnis.

Stjórn Heimilis og skóla fer þess á leit fyrir hönd foreldra í landinu að gerð verði gangskör í þessum málum. Skýra þarf regluverk í kringum börn hvað varðar hávaða og endurskoða skipulag til að draga úr svokölluðum erilshávaða (t.d. með því að hafa ekki of mörg börn inni í sama rými). Fylgjast þarf vel með hljóðvist í skólaumhverfi barna og unglinga m.t.t. endurbóta á eldra húsnæði og hönnunar nýrra bygginga á öllum skólastigum. Rétt væri að endurskoða byggingareglugerð með tilliti til hljómburðar og erilshávaða. Til að skapa öryggisnet í kringum börn og hlífa þeim við erilshávaða mætti t.a.m. tryggja börnum sömu stöðu og vinnuafl skóla hefur svo þau njóti sömu réttinda og verndar og fullorðnir.

Með von um góðar undirtektir,
f.h. Heimilis og skóla,
Ketill B. Magnússon, formaður Heimilis og skóla og Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri.