Foreldraverðlaun

Markmið Foreldraverðlauna Heimilis og skóla er að vekja athygli á því gróskumikla starfi sem fer fram innan leik-, grunn og framhaldsskóla, og þeim mörgu verkefnum sem stuðla að öflugu og jákvæðu samstarfi heimila, skóla og samfélagsins.

Foreldraverðlaun eru veitt til eins verkefnis/viðfangsefnis. Ef dómnefnd hefur þótt ástæða til, hafa jafnframt verið veitt sérstök hvatningar- eða dugnaðarforkaverðlaun. Ekki er þó hægt að tilnefna dugnaðarfork eða tilnefna aðila til hvatningarverðlauna.

Heimili og skóli – landssamtök foreldra standa fyrir Foreldraverðlaunum en samtökin sjálf, stjórn eða  starfsfólk  tilnefna ekki verkefni, heldur vinnur dómnefnd úr innsendum tilnefningum. Niðurstöður dómnefndar byggjast á greinargerðum og rökstuðningi þeirra aðila sem tilnefndu.

Tilnefning fer fram á rafrænu eyðublaði á vefsvæði Heimilis og skóla og þar er jafnframt að finna leiðbeiningar um tilnefninguna. Einnig er hægt fá upplýsingar hjá skrifstofu samtakanna í síma 516-0100.

Vakin er athygli á að verðlaun eru aðeins veitt til verkefnis/viðfangsefnis sem tilnefnt hefur verið með formlegum hætti  á rafrænu eyðublaði á vefsvæði landssamtakanna.

Foreldraverðlaunin 2016

Móðurmál, samtök um tvítyngi, hlutu Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2016 fyrir móðurmálskennslu. Samtökin voru formlega stofnuð árið 2001, en hafa boðið upp á móðurmálskennslu frá árinu 1994. Meginmarkmið samtakanna er að gefa börnum tækifæri til að læra og viðhalda eigin móðurmáli og koma fræðslu til foreldra, skóla og almennings. Innan raða samtakanna starfar fjöldi einstaklinga sem eru tilbúnir að leggja á sig ómælda sjálfboðavinnu til að halda úti tungumálakennslu fyrir börn sín og annarra. Móðurmálskennslan hefur farið fram í Reykjavík og í vetur hafa samtökin einnig skipulagt móðurmálskennslu á Suðurnesjum. „Það verður ómetanlegt fyrir lítið málsamfélag eins og Ísland að hér muni vaxi upp kynslóð ungs fólks sem kann mörg tungumál, ungt fólk sem á mörg móðurmál“, segir í tilnefningunni.

Hvatningarverðlaun 2016 hlaut foreldrafélag leikskólans Lautar í Grindavík. Foreldrafélagið hefur það að markmiði að efla aðkomu foreldra að starfi leikskólans og hefur verið með eindæmum hugmyndaríkt og drífandi og komið ótrúlegustu hugmyndum í framkvæmd. „Fyrir tilstuðlan foreldrafélagsins hafa m.a. hjúkrunarfræðinemar komið og sett upp Bangsaspítala á Bangsadeginum, öll börn hafa fengið tannbursta og tannkrem í Tannverndarvikunni, boðið var upp á listasýningu og staðið var fyrir uppákomu á 112 deginum,“ kemur fram í tilnefningunni.