Kynning á Læsissáttmála Heimilis og skóla fyrir foreldra í Árborg

Árborg

Facebook fundar með fulltrúum SAFT verkefnisins

Fb_fundur

SAFT verkefnið var upphaflega hluti af Safer Internet Action Plan, aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun en þeirri áætlun lauk árið 2014. Verkefnið er nú hluti af netöryggishluta samgönguáætlunar Evrópusambandsins og er styrkt af ESB og íslenskum stjórnvöldum. Samningsaðili við ESB er Heimili og skóli – landssamtök foreldra sem sér um að annast útfærslu og framkvæmd verkefnisins í formlegu samstarfi við Rauða krossinn, Ríkislögreglustjóra og Barnaheill – Save the Children á Íslandi. SAFT er í samstarfi við önnur lönd í Evrópu og deilir með þeim upplýsingum, aðferðafræði og þekkingu. Markmiðið er að til verði sameiginlegur sjóður þekkingar og aðferðafræði á þessu sviði sem styður hið jákvæða og spornar gegn neikvæðum hliðum upplýsingatækninnar.

Facebook hefur áhuga á að kynnast því forvarnarstarfi sem unnið er í netöryggismálum á Íslandi og einnig að heyra hverjar eru helstu áskoranir þegar kemur að öryggi á netinu og á Facebook. Facebook er í dag langvinsælasti samfélagsmiðillinn á Íslandi og eru Íslendingar einir af helstu notendum miðilsins þegar horft er á hlutfall íbúa. Fulltrúar þeirra aðila sem vinna saman að SAFT verkefninu sögðu á fundinum frá sínu starfi og ræddu helstu áskoranir  en SAFT verkefnið samanstendur af forvarnarhluta, hjálparlínu og neyðarlínu. Einnig var fulltrúi úr ungmennaráði SAFT viðstaddur og lýsti reynslu ungmenna. Christine sagði frá starfi Facebook og stefnu og þeim möguleikum sem í boði eru þegar kemur að notkun miðilsins, auknu öryggi og betri upplifun, en ýmsar nýjungar eru nú í boði.

Flest lönd glíma við svipaðar áskoranir þegar kemur að netöryggi; s.s.: einelti á netinu, hatursorðræðu, falska prófíla og auðkennastuld, vírusa og óviðeigandi efni. Einnig kom fram að mikilvægt er að geta tilkynnt á auðveldan hátt um óviðeigandi eða ólöglegt efni og skiptir þá máli að vera í góðu sambandi við fyrirtæki á borð við Facebook sem nær til um 1,3 milljarða manna. Mikilvægt er að tilkynna um óæskilegt framferði á Facebook og gera það á skýran hátt. Þannig er líklegt að fyrirtækið geti brugðist hratt og vel við. SAFT verkefnið hefur nú þegar tengilið hjá Facebook sem tekur við ábendingum og athugasemdum frá SAFT en fundurinn í dag treysti enn frekar undirstöður þeirrar samvinnu auk þess sem ræddar voru leiðir í hvernig Facebook getur stutt við starf verkefna á borð við SAFT og sýnt þannig samfélagslega ábyrgð.

Myndatexti: Fulltrúar SAFT verkefnisins áttu góðan fund með fulltrúa Facebook í höfuðstöðvum Heimilis og skóla. Á myndinni eru frá vinstri: Loftur Kristjánsson frá Ríkislögreglustjóra, Þóra Jónsdóttir frá Barnaheillum – Save The Children á Íslandi, Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, Jónína Björg Halldórsdóttir frá ungmennaráði SAFT og Christine Grahn, framkvæmdastjóri opinberrar stefnu Facebook á Norðurlöndunum. Á myndina vantar Björn Rúnar Egilsson, verkefnastjóri hjá Heimili og skóla og SAFT og Ívar Scram, verkefnastjóra hjá Rauða krossinum sem forfallaðist en sendi inn efni á fundinn.

Áskorun um gjaldfrjálsan grunnskóla

Námsgögn gjaldtaka 2016

Heimili og skóli hvetja alla foreldra grunnskólabarna til að skrifa undir undirskriftasöfnun Barnaheilla til að þrýsta á um að réttindi barna til gjaldfrjálsrar grunnmenntunar verði virt og innkaupalistar verði aflagðir. Kostnaður barnafjölskyldna við kaup á skólagögnum getur numið tugum þúsunda.

Eftir að Barnasáttmálinn var lögfestur á Íslandi árið 2013 gilda ákvæði hans sem lög hér á landi. 28. grein sáttmálans kveður á um rétt barna til grunnmenntunar án endurgjalds og 2. greinin gegn mismunun svo sem vegna efnahags foreldra.

Skólinn er hornsteinn jafnræðis í samfélaginu og þess vegna er afar mikilvægt að tryggja að börnum sé ekki mismunað.

Undirskriftarlistann má finna hér: www.barnaheill.is/askorun.

Tökum höndum saman og stöndum vörð um réttindi íslenskra barna til náms án gjaldtöku! Krefjumst þess að innkaupalistar skóla verði aflagðir og að öll börn standi jafnt að vígi þegar kemur að grunnréttindum þeirra til menntunar.

 

Er í lagi að segja hvað sem er á netinu?

Ungmennaráð SAFT stendur fyrir laufléttum leik á Fundi fólksins 2016 þar sem þátttakendur taka afstöðu til hatursfullra ummæla af netinu og ræða ólíkar birtingarmyndir hatursræðu í íslensku nútímasamfélagi. Fundur fólksins er tveggja daga lýðræðishátíð sem haldin verður í Norræna húsinu dgana 2. og 3. september og er hugsuð sem vettvangur samræðna sem geta nýst við ákvarðanatöku í samfélaginu.

Hittið okkur í Umræðutjaldi 2 kl. 16.30 við Norræna húsið, fáið ykkur kleinur og ræðið við okkur um þetta stóra samfélagsmein!

Hvatning Velferðarvaktarinnar til sveitarstjórna, skólanefnda, skólaskrifstofa og skólastjóra, um að leggja kostnaðarþátttöku foreldra vegna ritfangakaupa barna af eða halda honum í lágmarki

Velferðarvaktinni er m.a. falið samkvæmt skipunarbréfi að „…huga að velferð og afkomu efnalítilla barnafjölskyldna, sérstaklega einstæðra foreldra og barna þeirra og afla upplýsinga um aðstæður þeirra sem búa við sára fátækt svo draga megi úr henni“.

Velferðarvaktin hefur í gegnum tíðina komið opinberlega á framfæri ábendingum um að sveitarstjórnir leggi áherslu á að halda kostnaði heimila vegna skólasóknar barna í lágmarki í þeim tilgangi að koma til móts við þá sem standa höllum fæti í þjóðfélaginu. Þannig komi bágur efnahagur heimilisins síður niður á námi og lífi barna.

Í þessu sambandi hafa svokallaðir „innkaupalistar“, sem börn fá í grunnskólanum að hausti, verið sérstaklega til umræðu, en kostnaður vegna þeirra getur verið umtalsverður.

Síðastliðið haust sendi Velferðarvaktin stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga erindi í tilefni þess að stjórn sambandsins tók til umræðu „fyrirkomulag fjárútláta foreldra vegna kaupa á námsgögnum barna í grunnskóla og fyrirkomulag skólamáltíða“. Sambandið brást við með því halda vinnufundi með fulltrúum Velferðarvaktarinnar og gera úttekt á kostnaði foreldra m.a. vegna ritfanga. Í framhaldinu sendi sambandið út ábendingu til skólanefnda og skólaskrifstofa um kostnað vegna námsgagna (sjá fylgiskjal) þar sem þeim tilmælum er beint til þeirra að kanna framkvæmd þessara mála í sínu sveitarfélagi.

Í úttekt sambandsins sem kynnt var fyrir Velferðarvaktinni þann 17. maí s.l., kemur fram að skólar gera mjög mismunandi kröfur um hvaða gögn nemendum ber að koma með í skólann. Er þar um að ræða upphæðir allt frá 400-22.300 krónur. Kostnaður er því mjög mismunandi milli sveitarfélaga og jafnvel milli skóla í sama sveitarfélagi.

Velferðarvaktinni er kunnugt um að ákveðin sveitarfélög, t.d. Ísafjarðarbær og Borgarfjörður eystri, útvegi nemendum ritföng þeim að kostnaðarlausu og að Sandgerðisbær tekur einnig upp slíkt fyrirkomulag á skólaárinu sem hefst nú bráðlega.

Bent skal á að samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem lögfestur var hér á landi þann 20. febrúar 2013 og er nú hluti af íslenskri löggjöf, eiga börn rétt á ókeypis grunnmenntun. Þar segir m.a. í 28.gr. „Aðildarríki viðurkenna rétt barns til menntunar og skulu þau, til þess að réttur þessi nái fram að ganga stig af stigi og þannig að allir njóti sömu tækifæra, einkum: a) Koma á skyldu til grunnmenntunar sem allir geti notið ókeypis.” Einnig skal bent á að skv. 31 gr. grunnskólalaga skal skyldunám vera veitt að kostnaðarlausu og er óheimilt að krefja nemendur eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu, þjónustu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu. Þar er einnig lagatexti sem stuðst hefur verið við varðandi kostnaðarþátttöku foreldra „Þó er opinberum aðilum ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír.“

Velferðarvaktin telur að kostnaðarþátttaka foreldra, vegna ritfanga og annarra gagna vegna skólagöngu barna, upp á tugi þúsunda króna samrýmist hvorki anda Barnasáttmálans né grunnskólalaganna.

Af þeim sökum hvetur Velferðarvaktin öll sveitarfélög landsins til að leggja slíka kostnaðarþátttöku af eða haldi henni í algjöru lágmarki.

 

Bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga „-Ábending til skólanefnda um kostnað vegna námsgagna-„ til skólanefnda og skólaskrifstofa frá 3. maí 2016: Ábending til skólanefnda 2016

 

Velferðarvaktin er óháður álitsgjafi sem leggur fram tillögur
til stjórnvalda og hagsmunaaðila.

Sumarlokun þjónustumiðstöðvar Heimilis og skóla

Þjónustumiðstöð Heimilis og skóla verður lokuð frá fimmtudeginum 7. júlí til þriðjudagsins 2. ágúst vegna sumarleyfa starfsfólks.

Sumarlestrarbingó Heimilis og skóla

Heimili og skóli hafa útbúið sumarlestrarbingó enda er mikilvægt fyrir börn að missa ekki niður lestrarfærni þegar þau eru í fríi. Allir hafa 15 mínútur á dag aflögu og þá er eins gott að draga fram bingóspjöldin!

Sumarlestrarbingó

Lestrarbingóið má nálgast í prentupplausn hér:

Lestrarbingo-sumar2016_01

Lestrarbingo-sumar2016_02

Nýir tímar – Kynningarrit um breytingar sem nú standa yfir í grunnskólum landsins

Nýir tímarMennta- og menningarmálaráðuneytið gaf nýverið út kynningarrit sem útskýrir helstu breytingar sem nú standa yfir í grunnskólum landsins. Þar fjallað um nýtt einkunnakerfi og aukna áherslu á hæfni og læsi og leitað svara við spurningum á borð við Hvað er átt við með hæfni? Af hverju bókstafir í stað tölustafa?

Kynningarbréf um Læsissáttmála Heimilis og skóla

Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Heimili og skóli – landssamtök foreldra innsigluðu með samningi í janúar sl. samkomulag um læsissáttmála fyrir foreldra. Áður hafði Þjóðarsáttmáli um læsi verið undirritaður af mennta- og menningarmálaráðherra, fulltrúum sveitarfélaga og Heimilis og skóla í öllum sveitarfélögum landsins. Með undirrituninni staðfestu þeir sameiginlegan skilning á mikilvægi læsis til virkrar þátttöku í samfélaginu þannig að hver og einn geti nýtt hæfileika sína samfélaginu öllu til velferðar.

Meginmarkmið samkomulags ráðuneytisins og Heimilis og skóla eru að:

  • Stuðla að aukinni lestrarfærni barna og unglinga með þátttöku og stuðningi foreldra við framkvæmd þjóðarsáttmála um læsi.
  • Útbúa læsissáttmála fyrir foreldra og innleiða hann í skólum landsins.
  • Auka vitund foreldra um ábyrgð þeirra gagnvart læsi barna sinna.
  • Virkja foreldra í að styðja við læsi og lestrarþjálfun barna sinna.
  • Auka samstarf skóla og foreldra um læsisnám barna.
  • Koma á framfæri kynningarefni um áherslur og samstarf frjálsra félagasamtaka og stjórnvalda við að efla læsi barna.

Starfsfólk Heimilis og skóla mun kynna foreldrum og skólafólki um allt land sáttmálann næsta haust og sendu því nýverið kynningarbréf sem nálgast má hér að neðan:

Kynningarbréf

 

Orðstír deyr aldregi… Málþing um stafræna borgaravitund í menntun og uppeldi

Málþingið verður 2. júní 2016 kl. 14-17 í Hamri í aðalbyggingu Menntavísindasviðs (MVS) Háskóla Íslands við Stakkahlíð í Reykjavík. Á málþinginu verður fjallað um borgaravitund, tækniþróun og framtíð menntunar. Rætt verður um ýmis málefni sem tengjast uppvexti og menntun, námi, kennslu og starfsþróun í tengdum heimi, svo sem netorðstír, stafræn réttindi og stefnumótun. Aðstandendur málþingsins eru RANNUM – Rannsóknarstofa í upplýsingatækni og miðlun, MVS,  3f – félag um upplýsingatækni í menntun, Heimili  og skóli, Saft verkefnið, Menntamiðja og Reykjavíkurborg.

 

Aðalfyrirlesari verður Dr. Jason Ohler sem er Professor Emeritus í Educational Technology and Virtual Learning við University of Alaska. Tækifæri gefst til að spjalla við Dr. Ohler að loknu erindi hans og jafnframt verða málefni kynnt og síðan rædd með aðferðinni „Fishbowl“, þar sem framsaga er stutt en þátttakendur taka virkan þátt í umræðunni.

 

Dagskrá

14.00-14.10 Stofa H207 Setning málþings: Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla

14.10-15.00

Dr. Jason Ohler: Emerging technology, digital citizenship and the future of learning

15.00-15.15  Kaffihlé

15:15-15:45
Stuttar kynningar framsögufólks í pallborði á væntanlegum umræðuefnum
Hringborðsumræða með Jason Ohler

15:45-17:00  Fiskabúrs umræða

17:00 Léttar veitingar í Fjöru

Fundarstjóri: Tryggvi B. Thayer, verkefnisstjóri Menntamiðju

Framsögufólk í pallborði og fiskabúrsumræðu:

Fulltrúar frá ungmennaráði SAFT: Um netorðstír

 

Elínborg Siggeirsdóttir formaður 3f  félags um upplýsingatækni í menntun: Hvernig getum við sinnt fræðslu um stafræna borgaravitund í grunnskólunum?

 

Hildur Rudolfsdóttir kennsluráðgjafi Garðaskóla: “Bíddu, ég þarf bara aðeins að kíkja…”

 

Rósa Harðardóttir skólasafnskennari Langholtsskóla: eTwinning og stafræn borgaravitund

 

Salvör Gissurardóttir lektor Háskóla Íslands: Samlagsfélög í netheimum

 

Sara Daðadóttir kennaranemi Háskóla Íslands: “Free the nipple” umræða um myndbirtingar og valdeflingu

 

Sólveig Jakobsdóttir dósent Háskóla Íslands: Stafræn borgaravitund í kennaramenntun og starfsþróun

 

Sverrir Hrafn Steindórsson meistaranemi Háskóla Íslands: Stafræn réttindi og menntun

 

Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir verkefnisstjóri Reykjavíkurborg: Starfshópur um ábyrga notkun upplýsingatækni í skóla- og frístundastarfi