Fræðsla

Heimili og skóli bjóða upp á margvíslegar upplýsingar fyrir foreldra, ráðgjöf, tímarit og fyrirlestra fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla.
Meðal annars er boðið upp á:

 • Fyrirlestra um foreldrastarf, bekkjarstarf og skólamál almennt
 • Námskeið fyrir bekkjarfulltrúa
 • SAFT færðsla um jákvæða og örugga netnotkun
 • Fræðsla um aðalnámskrá
 • Að efla samstarf foreldra og samstarf heimila og skóla
 • Foreldraráð í leikskólum, skólaráð í grunnskólum og foreldraráð í framhaldsskólum

Fyrirlestrar

Netið og samfélagsmiðlar. Fyrirlesari: Björn Rúnar Egilsson heimspekingur / Sólveig Karlsdóttir uppeldis- og menntunarfræðingur, verkefnastjórar Heimilis og skóla og SAFT. Markhópur: Nemendur, foreldrafélög, skólaráð, kennarar og skólastjórnendur. Netið hefur opnað fyrir ótal möguleika sem notendur geta nýtt sér á uppbyggilegan hátt. En ótal dæmi um misnotkun og óvarlega netnotkun sýna fram á nauðsyn þess að við temjum okkur og börnum okkar snemma að nota netið á uppbyggilegan hátt. Rannsóknir sýna að á grunnskólaaldri er netnotkun orðin hluti af daglegu lífi. Mörg börn eiga snjalltæki sem býður þeim upp á að vera nettengd allan sólarhringinn alla daga vikunnar auk þess sem félagslíf barna fer að stórum hluta fram á netinu. Hins vegar fá þau mis mikla leiðsögn heima fyrir um hvernig umgangast beri netið á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Mörg börn eru þ.a.l. ekki nógu vel upplýst um ýmsar hættur sem steðja að þeim. á þar helst nefna tælingu, óvarlegar myndbirtingar, rafrænt einelti og netfíkn svo fátt eitt sé nefnt. Því miður er raunin sú að á netinu fyrirfinnst fólks sem villir á sér heimildir í þeim tilgangi að komast í tæri við börn á þessum aldri. Í fræðsluerindinu er farið yfir einkenni tælingarmála og hvað beri að varast í samskiptum við ókunnuga, hvað sé hægt að gera ef grunur vaknar um tilraun til tælingar og hvert sé hægt að leita. Eins fá börn og foreldrar fræðslu um meðferð persónuupplýsinga, alvarleika rafræns eineltis og óvarlegra samskipta og myndbirtinga á netinu,  farið verður yfir slæm áhrif ofnotkunar á tölvum og neti auk þess sem hvatt er til jákvæðrar og ábyrgrar netnotkunar. Fræðslan er lifandi og hvatt er til þátttöku nemenda og foreldra. Stuðst er við stutt myndbönd sem að lýsa ýmsum klemmum sem komið geta upp með óvarlegri netnotkun. Farið verður yfir helstu rannsóknir og hvernig netnotkun hefur verði að þróast síðustu ár. Farið veður yfir helstu heilræði í rafrænu uppeldi  og yfirlit gefið yfir aðgengilegt kennsluefni um netnotkun og einfaldar öryggisstillingar.

 

pinfo1

Fræðsla um foreldrasáttmála Heimilis og skóla

Fyrirlesari: Björn Rúnar Egilsson heimspekingur / Sólveig Karlsdóttir uppeldis- og menntunarfræðingur, verkefnastjórar Heimilis og skóla og SAFT. Markhópur:  foreldrafélög, skólaráð, bekkjarfulltrúar. Foreldrasáttmálinn hefur verið lagður fyrir í fjölmörgum grunnskólum um allt land og hefur verið með vinsælasta fræðsluefni Heimilis og skóla.  Í þeim samfélögum þar sem góð samstaða hefur náðst um sáttmálann er fólk sammála um jákvæð áhrif hans á barna- og unglingamenninguna sem og samstöðu foreldra um að virða útivistarreglurnar svo fátt eitt sé nefnt. Sáttmálinn kemur út í mismunandi útgáfum fyrir hvert stig grunnskólans og er honum ætlað að vekja uppalendur til vitundar um mikilvægi þess að sýna uppvexti og skólagöngu barna sinna og unglinga áhuga og setja þeim skýr mörk. Í þessu forvarnarverkefni er m.a. bent á að foreldrar sem senda barn útsofið í skólann eru að leggja sitt af mörkum til að barnið nái æskilegum námsárangri. Einnig tekur sáttmálinn til eineltis, samábyrgðar og reglna um notkun á tækni eins og tölvuleikjum og aðgengi að netinu og snjallsímum en í þeim málum er mikilvægt fyrir foreldra að geta haft samráð. Nánari upplýsingar um foreldrasáttmálann má finna hér.

Foreldrasattmalinn 2013

Fræðsla um nýja aðalnámskrá

Fyrirlesari: Björn Rúnar Egilsson heimspekingur og verkefnastjóri hjá Heimili og skóla og SAFT. Markhópur:  foreldrafélög, skólaráð. Ný aðalnámskrá boðar talsverðar breytingar og uppstokkun á starfsháttum og inntaki náms á Íslandi. Af þeim sökum stóðu Heimili og skóli fyrir kynningarfundum víðs vegar um landið árið 2013 þar sem foreldrum er boðið að koma og fræðast um nýja námskrá. Nú býðst foreldrafélögum að panta fræðsluna gegn gjaldi.  Á kynningunum verður farið í eftirfarandi atriði:

• Grunnþættir menntunar
• Ný og fjölbreytt vinnubrögð
• Hæfni og lykilhæfni
• Nýtt námsmat
• Skörun hæfniþrepa

Fræðslupakki

Nánari upplýsingar um aðalnámskrá má finna hér.

Verðskrá fræðslu og fyrirlestra 2015-2016

 

Fyrir félaga í Heimili og skóla Ekki félagar
Fullorðinsfræðsla – snemma eða síðdegis Fullorðinsfræðsla – snemma eða síðdegis
 1. Fyrirlestur – 50.000 kr.
 • Fyrirlestur – 60.000 kr.
 1. Fyrirlestur – 25.000 kr.
 1. Fyrirlestur – 15.000 kr.
Fræðsla fyrir nemendur – á dagvinnutíma Fræðsla fyrir nemendur – á dagvinnutíma
 1. Fyrirlestur – 30.000 kr.
 • Fyrirlestur – 40.000 kr.

 

Þjónusta Heimilis og skóla felst einkum í eftirfarandi:

 • að veita foreldrum/félagsmönnum stuðning til að þeir geti axlað uppeldishlutverk sitt og sinnt uppeldi barna sinna og skólagöngu þeirra
 • að miðla upplýsingum til foreldra svo þeir séu betur í stakk búnir til að taka þátt í mótun skólasamfélagsins
 • að efla starf foreldrafélaga svo þau verði sem virkust og foreldrar finni þar vettvang til samstarfs við skólann og til þátttöku í foreldrastarfi á landsvísu
 • að efla starf foreldraráða svo þau geti veitt skólum og skólayfirvöldum virkt og uppbyggjandi aðhald
 • að koma sjónarmiðum foreldra á framfæri við yfirvöld þegar teknar eru ákvarðanir sem varða skóla- og uppeldismál
 • að standa, ein eða í samvinnu við fleiri aðila, að verkefnum og vinnu sem stuðlar að bættum uppeldis- og menntunarskilyrðum barna og unglinga og bættum hag fjölskyldna
 • að undirbúa stofnun foreldrafélaga við framhaldsskóla landsins

Þú getur leitað til okkar

Ef þú hefur áhyggjur af einhverju varðandi skólagöngu barnsins þíns getur þú leitað til þjónustumiðstöðvar Heimilis og skóla. Við reynum að hjálpa þér við að finna heppilega leið til að leysa málið með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Þú þarft ekki að segja til nafns frekar en þú vilt. Símanúmer okkar er  516-0100. Við erum við símann kl. 9 – 12.

Einnig getur þú sent okkur fyrirspurn í tölvupósti:  heimiliogskoli@heimiliogskoli.is